Ný lopapeysa

Ég var að klára lopapeysu sem ég er ótrúlega ánægð með. Þetta er fullorðinspeysa sem er innblásin af öllum Frozen peysunum sem hafa slegið í gegn undanfarna mánuði.

Mig langaði s.s. að gera létta en samt svolítið kósý peysu svo ég notaði einfaldan plötulopa og Einband saman. Eftir á að hyggja þá hefði ég alveg mátt nota dekkri bláan. Mér fannst þessi bara svo fallegur eitthvað og vetrarlegur. Snjókornamunstrið teiknaði ég svo sjálf. Ég gúgglaði óteljandi snjókorn og eins og ég fann mörg falleg þá voru fæst hentug til að prjóna á lopapeysu. Ég þurfti því að finna svolítið út úr þessu sjálf. Er mjög ánægð með útkomuna.

Hvað sniðið varðar þá er það bara upp úr mér eins og venjulega. Ég sá fyrir mér breitt stroff og prjónaðan lista (s.s. ekki heklaðan) og það gekk eftir alveg eins og ég vonaði. Var samt ótrúlega lengi að ákveða mig endanlega með listann og prófaði að hekla hann fyrst til að vera alveg viss. Svo ákvað ég að hafa bara þrjár tölur og hafa peysuna opna að neðan. Ég hneppi peysunum mínum aldrei alveg niður svo mér fannst óþarfi að spreða í tölur alla leið (fyrir utan hvað mér finnst þetta flott).
Ætlaði reyndar að hafa stroff í hálsmálinu líka en svo prófaði ég að sleppa því bara og sé ekki eftir því. Það verður fínlegra svona.

Ég er svona að gæla við að skrifa upp uppskriftina af þessari. Var að fitja upp á annarri aðeins dekkri og aldrei að vita nema ég geri uppskrift í kjölfarið.

Unnur

2 athugasemdir við “Ný lopapeysa

Færðu inn athugasemd