Nýr fjölskyldumeðlimur

Ég hef ekki mikið prjónað eða heklað undanfarna daga enda upptekin við að sinna nýjasta fjölskyldumeðlimnum sem kom í heiminn síðastliðið mánudagskvöld. Litla daman lét sjá sig um tíuleytið eftir dagslanga dvöl á fæðingardeildinni. Hún er auðvitað fullkomin og öllum heilsast vel.

Ég hef aldrei farið í gegnum gangsetningu áður og verð að segja að ég hafði það ansi huggulegt yfir daginn og nýtti tímann m.a. til að hekla. Er að gera enn eitt teppið úr tvöföldu Kambgarni eftir þessari uppskrift.

Ég var síðan orðin ansi spennt að sjá hvernig heimferðarsettið myndi passa á dömuna en ég tók smá áhættu með peysuna og minnkaði minnstu stærðina um ca. 20%. Það kom svo í ljós að hún passaði fínt nema ég hefði kannski mátt hafa hettuna oggulítið lengri. Húfan og sokkarnir voru pörfekt.

Nú taka við „rólegheita“ dagar heima og það fer að koma að því að maður tekur upp prjónana/nálina á milli gjafa 😉