Í mjög langan tíma langaði mig að gera einhverja fínlega innipeysu … svona svipaða þeim sem maður gæti keypt í Zöru eða Lindex eða eitthvað. Ég skoðaði fullt af peysum og garni og pældi mikið fram og til baka. Svo eignaðist ég fyrir tilviljun peysu úr H&M og ákvað að mig langaði að nota hana sem fyrirmynd. Úr því varð til Inside Out Sweater. Nafnið kemur af því að hún snýr þannig að rangan er út, þ.e. garðarnir snúa út en ekki slétta prjónið. Í raun er hún prjónuð bara venjulega en maður þarf að passa að fela alla enda á sléttu hliðinni.
Fyrst notaði ég bómullar-akrýl blöndu sem ég fann í Rúmfatalagernum. Ég prjónaði hana fyrst „bottom up“ og hafði raglan úrtöku í axlastykkinu. Það var heilmikið mál að græja úrtökuna eins og ég vildi og ég komst fljótlega að því að ég hefði frekar átt að prjóna hana „top down“ til að ná rétta lúkkinu.
Peysan varð reyndar aðeins of stór en ég er samt ánægð með útkomuna og garnið er mjög hentugt í svona peysu. Ég alveg elska þennan lit.
Fljótlega eftir að ég kláraði fyrri peysuna varð ég alveg æst í að prófa að gera eins peysu „top down“. Eftir heilmiklar pælingar ákvað ég að nota loksins dýrmæta Malabrigo Silky Merino garnið sem ég var búin að eiga í örugglega 5 ár í garnhrúgunni minni.
Þessi peysa varð minni en axlastykkið heppnaðist mun betur og varð nákvæmlega eins og ég vildi, þ.e. með tveim götum sitt hvoru megin við útaukningarnar. Garnið nýtur sín líka rosalega vel á röngunni því það er smá mislitt sem mér finnst ekki alltaf flott í sléttu prjóni.
Ég nota báðar peysurnar mjög mikið og fannst virkilega gaman að prófa að prjóna aðeins öðruvísi peysu upp úr mér, s.s. ekki bara alltaf lopapeysur.
Fyrir þær sem hafa áhuga þá má nálgast uppskriftina af fjólubláu peysunni
hér.
Líkar við:
Líka við Hleð...