Að lykkja saman

Þegar ég byrjaði að prjóna lopapeysur kunni ég ekki að lykkja saman og lítil hjálp var í móður minni (sem þá var mín aðal þekkingarlind) því hún prjónar lykkjurnar alltaf saman. Mér hins vegar finnst það ekki nógu falleg aðferð og lærði að lykkja saman með aðstoð internetsins og lopablaðanna.

Í fyrstu gekk það ekki svo vel. Ég sneri lykkjunum öfugt, fór vitlaust inn í þær og var alltaf að missa niður lykkjur. En æfingin skapar jú meistarann og nú tel ég mig vera búna að fullkomna aðferðina. Ég vil endilega deila henni með ykkur og hef því búið til myndband sem sýnir hvað ég geri.

Vinnan við að lykkja saman hefst hjá mér þegar ég fitja upp. … Nú hugsa eflaust margir að ég sé ekki með réttu ráði en mér finnst þetta vera algjört lykilatriði til þess að koma í veg fyrir lausar lykkjur og göt.

Það sem ég geri er að bæta 4 lykkjum við heildarlykkjuföldann, t.d. 2 lykkjur á búk og 1 á hvorri ermi. Ef það er munstur neðst á bol og ermum þá bætti ég lykkjunum bara við eftir það til að rugla ekki munstrið.

Síðan þegar ég sameina búk og ermar þá prjóna ég saman síðustu lykkju af búk og fyrstu lykkju af ermi og svo aftur síðustu lykkju af ermi og fyrstu lykkju af búk (við báðar ermar auðvitað). Þannig fækka ég þessum 4 lykkjum aftur og enda með réttan lykkjufjölda. Ef einhverjum finnst þetta of flókið eða mikið vesen má líka sleppa að bæta lykkjunum við í upphafi, prjóna lykkjurnar saman og auka aftur út um 4 lykkjur í næstu umferð. Einnig má auðvitað bara sleppa þessu alfarið en þá meikar partur af myndbandinu mínu ekki alveg jafn mikið sens 😉Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni og öll komment eru vel þegin 🙂